UM HÖFUND
Um Jakob Ómars
Jakob Ómarsson er fæddur árið 1985 í Reykjavík. Fyrstu tvö árin í lífi hans bjó hann í Vestmannaeyjum en við tveggja ára aldurinn flutti hann til Reykjavíkur og hefur búið í vestur- eða miðbæ Reykjavíkur síðan.
Jakob lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 2006, BS-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 2010 og árrið 2108 lauk hann svo MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík. Nýlega lauk Jakob námi til kennsluréttinda og kennir nú við Verzlunnarskóla Íslands.
Jakob hefur ávallt verið virkur í félagslífi skólanna en hann var meðal annars framkvæmdastjóri nemendafélags MH, formaður Mágusar - félags viðskiptafræðinema og svo sat hann í tvö ár á Háskólaþingi fyrir hönd Röskvu. Jakob var einn af stofnendum leikfélagsins Ofleiks.
Jakob hefur lengi verið að skrifa og blogga en Ferðalagið er hans fyrsta útgefna bók.
Jakob á eina dóttur og er ógiftur.
AÐ SKRIFA BARNABÓK
Ég, Jakob Ómarsson, hef enga reynslu af því að skrifa og gefa út barnabók. Öllu heldur hafði ég enga reynslu af því fyrr en ég skrifaði Ferðalagið - en hún mun líta dagsins ljós í haust. Þrátt fyrir reynsluleysið, léttan athyglisbrest og þann áhugaverða galla að vera greindur með dyslexíu þá hef ég skrifað mikið í gegnum tíðina. Meðal annars hef ég skrifað fyrir vinnu, greinar og gott betur því árum saman hélt ég úti nokkuð vinsælu bloggi.
Mig hafði lengi dreymt um að skrifa bók en vissi ekki hvernig ég ætti að byrja. Undirmeðvitundin mín vann líka ekki með mér því lengi taldi ég að það væru aðeins hörðustu bókmenntasérfræðingar sem skrifuðu bækur.
Rétt eins og börn og allt annað fólk, þá hef ég mína styrkleika og rétt eins og hjá börnum og öllu öðru fólki, þá eru styrkleikar mínir mun fleiri en veikleikar. Ég er mikill ljósberi (merkingu orðsins má finna í Ferðalaginu), opinn, drífandi, skapandi og ég hef frá svo mörgu að segja.
Ég er mögulega ekki sá klárasti þegar kemur að málfari og stafsetningu en ég er hugmyndaríkur og kann að láta góðar sögur lifna við.
Ferðalagið varð til fyrir tilviljun. Til að byrja með átti þetta aðeins að vera létt styrkleikaæfing fyrir dóttur mína. Ég sýndi frá æfingunni á samskiptamiðlum og fékk ótrúlega góðar viðtökur. Ég vissi að ég væri með eitthvað spennandi í höndunum og í framhaldinu byrjaði smám saman að myndast hugmynd í kollinum á mér. Með fyrrnefnda styrkleika og dass af hvatvísi að vopni hófst ég handa við að skrifa.
Eitt leiddi af öðru og áður en ég vissi af þá var ég búinn að skrifa barnabók, stofna bókaútgáfu og gera 63 styrkleikakort með útskýringum, sérstaklega hugsuð fyrir börn.
Ferðalagið er engin venjuleg bók en til að mynda þá kemur hún í kassa sem lítur út eins og ferðataska. Henni fylgja styrkleikakortin og ýmsar æfingar. Umfjöllunarefni hennar eru líka heldur fjölbreytt og óvenjuleg en meðal annars er fjallað um hugsanalestur, það sem við stjórnum og það sem við stjórnum ekki, að hvetja aðra áfram, að það sé bannað að prumpa heima hjá forsetanum, að við skrifum sjálf okkar eigin sögu og margt fleira. Bókin er lesin upphátt og er samvera foreldris og barns álíka mikilvæg og efni bókarinnar.
Ferðalagið leitast við að tækla flókin viðfangsefni og útskýra þau fyrir börnum þannig að þau skilji hvað átt er við. Bókin er þó ekki hugsuð sem einhver töfralausn né lausn á geðrænum vandamálum (ég bendi þá fólki frekar á að leita úrlausnar hjá sérfræðingi) heldur er um að ræða hjartahlýja bók með góðum ráðum út í lífið og einfalda æfingu í að kynnast sér og sínum styrkleikum betur.
Ég vona innilega að lesturinn, samveran og æfingarnar eigi eftir að vera ykkur ánægjulegar.
Góða ferð og njótið ferðalagsins!