top of page

UM AKÍLU

Akíla-ánBakgrunns2.png
AKÍLA

Sumir myndu mögulega halda að aðalhetja bókarinnar væri kötturinn Akíla en svo er alls ekki. Hetja Ferðalagsins er nefnilega barnið sjálft og hlutverk Akílu er aðeins að aðstoða barnið í gegnum þetta ferðalag þar sem barnið kynnist sjálfu sér betur.

Þar sem aðaláhersla bókarinnar er á barnið sjálft gefst því miður ekki mikið rými til að kynna Akílu en í byrjun bókarinnar er þó örstuttur kafli þar sem hún er kynnt til leiks. Þar er þó einna helst verið að kynna ástæðu þess að Akíla er á jörðinni og markmið hennar.

Vissulega hefði verið gaman að hafa söguna um Akílu lengri en hvernig sem ég reyndi þá skyggði það á það sem skipti mestu máli; ferðalag barnsins. Því hef ég ákveðið að birta meira efni um Akílu hér á heimasíðunni og hver veit nema Akíla fái sína eigin bók einn daginn.

Því er um að gera að fylgjast með!

Athugið að sagan hér að neðan er aðeins uppkast og hún gæti tekið breytingum.

SAGAN AF AKÍLU

Það er ekki lítið hvað það gleður mig að hafa loksins hitt þig. Ég heiti Akíla og hef helgað lífi mínu ævintýrum og því að hjálpa öðrum.

Í manna árum er ég 14 ára og fæddist á plánetu sem kallast Egóþía en hún er þúsundum ljósára í burtu. Á heimaplánetunni minni búa ýmiss konar persónur, verur og andar í sátt og samlyndi en þar hefur ríkt friður í meira en 3000 ár. Á plánetunni Egóþíu leggjum við mikið kapp á að hugsa um hvert annað og sjá til þess að styrkleikar okkar allra fái að dafna og njóta sín. Við leggjum mikinn metnað í að lifa í sátt og samlyndi við hvert annað og jörðina því við höfum komist að því að þannig höldum við öllu lífinu í jafnvægi. Þannig ná allar lífsins verur að lifa og dafna.

Á plánetunni Egóþíu eru 6 frumefni sem skipta gífurlega miklu máli en þau eru jörð, vatn, sólin, tunglið, loft og eldur. Frumefni þessi eru svona mikilvæg því það eru í raun þau sem halda öllu í jafnvægi á plánetunni og lífinu á henni. Þessi frumefni verða sterkari og þeim fjölgar ef við erum góð við hvert annað og gerum góða hluti.

Fyrir nákvæmlega 81 ári fóru ill öfl, með græðgi í fyrirrúmi, að herja á plánetuna okkar, eyðileggja hana og safna frumefnunum. Fyrst hafði enginn áhyggjur af þessum öflum en með tímanum óx þeim ásmegin og áður en nokkur gerði sér grein fyrir var orðið of seint að grípa í taumana. Í dag leggja þessi vondu öfl allt kapp í að safna frumefnunum og þeim er sama hvort þau eyðileggja þau eða jörðina mína í leiðinni. Mitt markmið er að stöðva þessi öfl og koma jafnvægi á lífið á Egóþíu.

Ég fæddist í litlu þorpi sem heitir Afsawe og var staðsett í miklum og gróskuríkum frumskógi þar sem íbúar lifa í sátt við dýr og náttúru. Síðan ég man eftir mér hef ég verið munaðarlaus en mamma mín og pabbi hurfu skyndilega þegar ég var tveggja ára. Síðan þá hafa dýrin í litla þorpinu séð um mig.

Ég var ekki nema 8 ára þegar vondu öflin, sem kennd eru við reglu Mundare, komu með vélarnar sínar og eyðileggingin hófst. Mundare-reglan hélt því fram að þetta væru óumflýjanlegar aðgerðir því á svæðinu hefðu fundist efni sem væru stórhættuleg.

Það tók regluna ekki nema fjóra mánuði að eyðileggja meira og minna allt líf á svæðinu og fella flestöll trén. Ég man það eins og það hafi gerst í gær hvernig það var að yfirgefa fallega þorpið í síðasta sinn og ég sakna þess enn.

Síðan þá hef ég flakkað um meira og minna alla plánetuna í leit að svörum. Upplýsingum um það hvernig hægt sé að koma jafnvægi á plánetuna mína.
Trúðu mér, ég hef farið víða.  Ég hef komið til Ikak, stærstu borgar Egóþíu, farið í siglingu um sjálflýsandi hellana við Bernim vatn, farið í ævintýraleiðangur um Geld eldsvæðið, lent í lífsháska við strendur Oraz og heimsótt fljúgandi eyjarnar við Jakis en… en ég er engu vísari.

Einn daginn var ég á göngu um skóg nokkurn – rétt eins og ég hafði gert óteljandi oft áður. Allt í einu kom ég auga á helli sem ég gæti svarið fyrir að var ekki þar síðast. Ég læddist upp að hellinum og skreið inn í hann. Þar var niðamyrkur og ekkert að sjá. Ég skreið lengra inn í hellinn, þar til hann var það dimmur og myrkrið heltók allt. Það sást bókstaflega ekkert. Allt var svart. Ég ákvað að snúa við en þegar ég bjó mig undir það að fara til baka kviknaði allt í einu marglitt ljós í miðjum hellinum. Ég mjakaði mér nær og sá að ljósið kom frá 6 eðalsteinum (gimsteinum). Steinarnir gáfu frá sér furðulegt hljóð en án þess að hugsa frekar þetta skreið ég enn nær og sá að marglituðu steinarnir voru fastir við tréstaf.

Fiverr Jakobari 19 new.jpg

Ég prófaði að taka upp stafinn og um leið fannst mér eins og einhver kraftur færi um mig. Mér brá mjög mikið því krafturinn var ótrúlegur. Hann fór um mig alla og mér leið eins og ég hefði heyrt ýmiss konar raddir. Það var eins og eitthvað eða einhver hefði snert við hjartanu mínu. Fyrst brá mér mjög mikið og ég var hrædd um að eitthvað hræðilegt væri að gerast en eftir örskamma stund minnkaði krafturinn og ég gat aftur farið að hugsa eðlilega.

Ég ákvað því að skoða eðalsteinana mjög vandlega og sá að inni í þeim bláa var greinilega frumefnið vatn. Ég var fljót að átta mig á því að í hinum steinunum voru hin frumefnin. Þar var meira að segja hið ótrúlega sjaldgæfa frumefni tunglsins, en aðeins örfáir hafa séð það með eigin augum og enn færri snert það.

Ég lá þarna í hellinum og mér leið frekar skringilega. Ég var enn smá dösuð eftir að krafturinn hafði farið um líkama minn og ég var enn að hugsa um það að mér fannst eins og ég hefði heyrt raddirnar segja við mig að krafturinn væri minn. Ég hafði bara ekki hugmynd um hvað það þýddi.

Ég tók upp stafinn og gerði mig líklega til að fara út úr hellinum en á sömu mínútu byrjaði allt að skjálfa og titra. Áður en ég vissi af varð þessi rosalega sprenging.

Ég fattaði um leið að þetta væri engin venjuleg sprenging því þegar ég leit upp þá sá ég að ég var ekki lengur stödd í hellinum heldur var ég kominn á stað sem ég hafði aldrei séð áður. Ég var frekar fljót að átta mig á því að þetta væri ekki plánetan Orx heldur einhver önnur pláneta. Ég vissi það ekki þá, en síðar komst ég að því að hún heitir Jörð.

Mér skilst að þetta sé plánetan þín. Ég hef nú verið hér í nokkra daga og hef komist að því að til þess að komast til baka þá þarf ég að fylla stafinn minn af orku. Orkuna fæ ég frá frumefnunum og frumefnin verða til þegar krakkar eins og þú finna sína styrkleika og þegar að mannfólk kemur vel fram við hvert annað. Því ætla ég að leiða 10.000 börn um allan heim í ferðalag, ferðalag til þess að finna sína styrkleika.

Það er mín köllun!

bottom of page